Rótarfræsing heimili

Í grónum hverfum setur trjágróður mikinn og hlýlegan svip á umhverfið. En rætur trjánna eru oft óvinir húseigenda, sérstaklega þar sem frárennslisrör eru steinsteypt. Ræturnar þröngva sér iðulega inn í rörin og stífla þau að endingu. Plaströr eru þrátt fyrir allt ekki full trygging fyrir því að trjárætur komist ekki inn í lagnakerfið. Ef raki kemst einhversstaðar út úr lögn, t.d. vegna galla í þéttihringjum, geta ræturnar  þröngvað sér inn. Það er gömul mýta að rætur aspa séu einu óvinir lagnanna. Staðreyndin er sú að rætur margra annarra trjátegunda þröngva sér inn í lagnir ef þær fá tækifæri til. Trjárætur elta rakann og ef þær fá að vera óáreittar vaxa þær og vaxa inn með lögnunum og stífla þær eða jafnvel sprengja að endingu. Þéttleiki rótanna er þá orðinn svo mikill að ekkert tæki bítur á þeim. Því hafa sumir húseigendur orðið fyrir því að þurfa jafnvel að brjóta upp gólf innanhúss til að fjarlægja rótarstíflaðar lagnir. Reglubundið eftirlit með röramyndavélum getur því komið í veg fyrir kostnaðarfrekt viðhald.

Rótarfræsing fer fram með sérhönnuðum vatnsknúnum tækjum sem fræsa lagnirnar innanverðar með miklum snúningskrafti. Fræsingar eru sjaldnast varanleg lausn ein og sér en oft getur hentað að fóðra lagnir eftir fræsingu.