Lykt úr niðurföllum

Skólplykt úr niðurföllum er nokkuð sem fæstir geta sætt sig við. Ástæður lyktarinnar geta verið margvíslegar en oftast kemur hún vegna þess að vatn gufar upp úr vatnslásnum. Algengast er að slíkt gerist í niðurföllum sem sjaldan eru notuð en aðrar ástæður geta legið í gólfhita eða nálægð við ofn eða raftæki sem gefur frá sér hita. Lausnin felst í að hella vatni reglulega í niðurfallið og koma þannig í veg fyrir að gufur frá lagnakerfinu berist inn í húsið. Þar sem umgangur er lítill, eins og t.d. í sumarhúsum á vetrarmánuðum, er ágætis ráð að hella umhverfisvænni niðurfallaolíu í niðurfallið. Slíkar olíur fást hjá olíufélögunum. Þær hafa mun hægari uppgufun en vatn og halda því vatnslásnum í virkni í lengri tíma.