Skordýr frá lögnum

Þegar skordýr og áttfættlur finnast í híbýlum manna er rétt að skoða húsnæðið vandlega. Þessir óboðnu gestir gefa skýrar vísbendingar um að eitthvað sé í ólagi í húsnæðinu.
Nauðsynlegt er að leita leka, óþéttra röra eða vatnslása, kanna hvort slagi leynist í veggjum o.s.frv. Klóakmaurar (húsamaur), silfurskottur, rottur og ýmsar aðrar lífverur taka sér gjarnan búsetu í híbýlum ef skilyrði bjóða upp á það. T.d. eru miklar líkur á að raki sé í námunda við þá staði sem silfurskottur leynast því þær þurfa 60-75% raka til þess að lifa og fjölga sér. Mörg önnur skordýr njóta sín vel í raka eins og t.d. rakamaurar, þúsundfætlur, grápöddur, kakkalakkar, klaufhalar, járnsmiðir o.fl. Þegar dýr koma upp úr niðurföllum er oftast um að kenna illa lokuðum niðurföllum, rör eru opin eða lek, vatnslásar bilaðir eða rangt saman settir eða að tæring leynist í lagnakerfinu.

Auk leka og slaga geta illa einangraðar gólfplötur, skortur á dreni og fl. verið rót vandans. Nauðsynlegt er að laga alla slíka vankanta á húsnæðinu áður meindýraeyðir kemur til að úða svo að sagan endurtaki sig ekki. Best er að losna við óæskileg skordýr með því að bregðast strax við. Til dæmis má með einföldum aðgerðum takmarka útbreiðslu þeirra s.s. með því að hækka hitastigið í herberginu, auka loftræstingu og finna orsökina fyrir rakamyndun. Forvarnir eru mikilvægar, ekki síst í fyrirtækjum í matvælaiðnaði. Þar er talið áhrifaríkast að úða fyrir skordýrum á þriggja mánaða fresti til að komast fyrir meinsemdir.

Valur Helgason ehf. er í samstarfi við fagmenn til verka í meindýravörnum. Þeir hafa öll nauðsynleg starfsleyfi s.s. réttindaskírteini frá Umhverfisstofnun og eiturefnaskírteini frá sýslumanni/lögreglustjóra. Það er ákaflega mikilvægt að húsráðendur fari eftir þeim leiðbeiningum sem meindýraeyðirinn setur þeim svo að áhrif eitrunar nýtist sem best.