Að forðast stíflur.

Besta ráðið til að forðast stíflur í frárennslislögnum er að tryggja að góðar ristar séu í öllum niðurföllum og að brunnar standi ekki opnir.

Þar sem kvarnir eru í eldhúsvöskum má forðast stíflur með því að láta ávallt renna heitt vant þegar kvörnin er í gangi. Gott er að láta vatnið líka renna áfram í smá stund eftir að úrgangur hefur verið settur í kvörnina.

Mikilvægt er að hella ekki fitu s.s. heitri olíu eða feiti í vaska. Betra er að láta hana storkna og henda dýrafitu í ruslið og skila olíu til endurvinnslu eftir því sem hægt er.

Þar sem plaströr og gúmmíþéttingar eru algengustu efnin í niðurföllum sturtubotna getur verið varasamt að nota kemískan stíflueyði í niðurföll. Í forvarnarskini ráðleggur Valur Helgason ehf. viðskiptavinum sínum að kaupa lausar ristar í niðurföllin sem safna hári og aðskotahlutum og koma þannig í veg fyrir stíflur. Slíkar ristar má fá í byggingavöruverslunum fyrir hóflegt verð.

 

 

Lykt úr niðurföllum

 
 

Skólplykt úr niðurföllum er nokkuð sem fæstir geta sætt sig við. Ástæður lyktarinnar geta verið margvíslegar en oftast kemur hún vegna þess að vatn gufar upp úr vatnslásnum. Algengast er að slíkt gerist í niðurföllum sem sjaldan eru notuð en aðrar ástæður geta legið í gólfhita eða nálægð við ofn eða raftæki sem gefur frá sér hita. Lausnin felst í að hella vatni reglulega í niðurfallið og koma þannig í veg fyrir að gufur frá lagnakerfinu berist inn í húsið. Þar sem umgangur er lítill, eins og t.d. í sumarhúsum á vetrarmánuðum, er ágætis ráð að hella umhverfisvænni niðurfallaolíu í niðurfallið. Slíkar olíur fást hjá olíufélögunum. Þær hafa mun hægari uppgufun en vatn og halda því vatnslásnum í virkni í lengri tíma.

 
 

 

Skordýr frá lögnum

 
 

Þegar skordýr og áttfættlur finnast í híbýlum manna er rétt að skoða húsnæðið vandlega. Þessir óboðnu gestir gefa skýrar vísbendingar um að eitthvað sé í ólagi í húsnæðinu.
Nauðsynlegt er að leita leka, óþéttra röra eða vatnslása, kanna hvort slagi leynist í veggjum o.s.frv. Klóakmaurar (húsamaur), silfurskottur, rottur og ýmsar aðrar lífverur taka sér gjarnan búsetu í híbýlum ef skilyrði bjóða upp á það. T.d. eru miklar líkur á að raki sé í námunda við þá staði sem silfurskottur leynast því þær þurfa 60-75% raka til þess að lifa og fjölga sér. Mörg önnur skordýr njóta sín vel í raka eins og t.d. rakamaurar, þúsundfætlur, grápöddur, kakkalakkar, klaufhalar, járnsmiðir o.fl. Þegar dýr koma upp úr niðurföllum er oftast um að kenna illa lokuðum niðurföllum, rör eru opin eða lek, vatnslásar bilaðir eða rangt saman settir eða að tæring leynist í lagnakerfinu.

Auk leka og slaga geta illa einangraðar gólfplötur, skortur á dreni og fl. verið rót vandans. Nauðsynlegt er að laga alla slíka vankanta á húsnæðinu áður meindýraeyðir kemur til að úða svo að sagan endurtaki sig ekki. Best er að losna við óæskileg skordýr með því að bregðast strax við. Til dæmis má með einföldum aðgerðum takmarka útbreiðslu þeirra s.s. með því að hækka hitastigið í herberginu, auka loftræstingu og finna orsökina fyrir rakamyndun. Forvarnir eru mikilvægar, ekki síst í fyrirtækjum í matvælaiðnaði. Þar er talið áhrifaríkast að úða fyrir skordýrum á þriggja mánaða fresti til að komast fyrir meinsemdir.

Valur Helgason ehf. er í samstarfi við fagmenn til verka í meindýravörnum. Þeir hafa öll nauðsynleg starfsleyfi s.s. réttindaskírteini frá Umhverfisstofnun og eiturefnaskírteini frá sýslumanni/lögreglustjóra. Það er ákaflega mikilvægt að húsráðendur fari eftir þeim leiðbeiningum sem meindýraeyðirinn setur þeim svo að áhrif eitrunar nýtist sem best.