HEIMILI

Ástandskoðun

Eigendur húsnæðis sem er eldra en 25 ára ættu að láta mynda skólplagnir og kanna ástandið reglulega. Í flestum tilfellum má auka endingartíma lagna og lágmarka kostnað við viðgerðir ef skemmdir eru á byrjunarstigi.

Þeir sem hyggja á kaup á fasteign eða eru að endurnýja eldhús eða baðherbergi ættu í öllum tilfellum að láta skoða ástand lagna áður en hafist er handa. Smáar röramyndavélar sem komast inn í minnstu rör eru notaðar til að meta ástandið. Á þann hátt má koma í veg fyrir fjárhagstjón og ómæld óþægindi.

Stíflulosun

Valur Helgason hefur hartnær hálfrar aldar reynslu í stíflulosun í frárennslislögnum, brunnum niðurföllum, þakrennum og dreni. Rætur, aðskotahlutir og hvers konar stíflur í frárennslislögnum, yfirfylling brunna og minni stíflur innanhúss sem utan eru leikur einn í höndum reyndra starfsmanna fyrirtækisins. Þegar þörf er á frekari framkvæmdum s.s. þegar skemmdir hafa orðið getur Valur Helgason leyst málið af fagmennsku í samvinnu við sérhæfða iðnaðarmenn og sérfræðinga.

Stíflur eru losaðar á margvíslegan hátt. Í flestum tilfellum dugir að nota sérhæfðar háþrýstidælur með þrýstistútum eða sniglum sem þröngva sér í gegn um erfiðustu stíflur eða ýta aðskotahlutum á undan sér. Stundum þarf að dæla úr brunnum eða fræsa burt rætur trjáa en í einstaka tilfellum þarf að grafa upp lagnirnar og skipta um þær.

Ef um er að ræða sérstaklega erfiðar stíflur getur þurft að endurnýja lagnir. Til þess að gera iðnaðarmönnum auðvelt fyrir og halda raski í skefjum er mikilvægt að staðsetja lagnir nákvæmlega. Valur Helgason hefur yfir að ráða örsmáum myndavélum sem hægt er að fara með t.d. niður um eldhúsvaska. Staðsetningarbúnaður og dýptarmælir staðsetur stíflur og bilanir af mikilli nákvæmni.

Notkun stíflueyða

Þar sem plaströr og gúmmíþéttingar eru algengustu efnin í niðurföllum heimila getur verið varasamt að nota kemískan stíflueyði í niðurföll. Einnig geta stál- og postulínsvaskar skaðast af slíkum efnum og ráðleggur Valur Helgason viðskiptavinum sínum að fara varlega í notkun slíkra efna.

Í forvarnarskini ráðleggur Valur Helgason viðskiptavinum sínum að kaupa lausar ristar í niðurföll sem safna hári og aðskotahlutum og koma þannig í veg fyrir stíflur. Slíkar ristar má fá í byggingavöruverslunum fyrir hóflegt verð.

Niðursetning brunna

Byggingarreglugerðir krefjast þess að brunnar séu settir við allar nýbyggingar enda er mikið öryggi og kostnaðarhagkvæmni fólgin í að hafa aðgang að lögnum utanhúss vegna eftirlits og viðhalds. Í eldri hverfum eru fæst hús með brunnum og kostar það oft erfiðleika þegar stíflur myndast eða lagnir bila. Við slíkar aðstæður tekur Valur Helgason að sér að setja niður brunna og tengja við lagnir sem fyrir eru.

Oft hafa brunnar verið faldir með torfi, jarðvegi, mynstursteypu, sólpöllum eða hellulögnum. Þegar bilanir verða við slíkar aðstæður verður iðulega mikið rask og aukinn kostnaður þegar eigendur leita brunna. Slíkt má forðast með því að kalla til Val Helgason því myndavélar fyrirtækisins eru með nákvæmum staðsetningar- og dýptarmælum sem greina staðsetningu brunna af mikilli nákvæmni.

Þegar grafa þarf niður á lögn sem hefur bilað eða brostið hentar oft að setja brunn á bilunarstaðinn til að koma í veg fyrir sams konar vandamál í framtíðinni. Starfsmenn Vals Helgasonar setja niður slíka brunna ef óskað er.
Röramyndatökur

Valur Helgason hefur yfir að ráða fullkomnustu röramyndavélum sem í boði eru á markaðnum. Allt frá örsmáum vélum sem komast niður í eldhúsvaska yfir í vélar sem mynda skólplagnir. Vélarnar eru með staðsetningarbúnaði og dýptarmælum sem staðsetja bilanir, stíflur, falin niðurföll o.þ.h. af mikilli nákvæmni.

Að myndatökum loknum geta viðskiptavinir óskað eftir stafrænni upptöku með skýrum myndskeiðum af lögnunum. Slíkar myndir geta gert iðnaðarmönnum kleift að ganga hratt og örugglega fram í viðgerðum. Myndirnar nýtast einnig við samanburð á ástandskoðunum í framtíðinni. Valur Helgason geymir myndbandsupptökur í eitt ár frá tökudegi.

Stíflaðir vaskar og niðurföll

Stíflur eru oftast fjarlægðar með snigiltækni eða háþrýstitækni. Þar sem lagnir eru sérstaklega viðkvæmar eða stíflaðar með harðgerðum aðskotahlutum er beitt þeirri tækni sem hentar best í hverju tilfelli fyrir sig.

Stíflaðir sturtubotnar og baðkör

Stíflur í lögnum sturtubotna og baðkara eru yfirleitt vandmeðfarnar. Ástæðan fyrir því er að aðgengi að lögnum undir sturtubotnum og baðkörum er oft takmarkað.

Í sumum tilfellum er hægt að beita snigiltækni en í öðrum tilfellum er eina leiðin að opna sér leið að vatnslásnum.

Stífluð salerni

Stíflun í salerni er eitt það hvimleiðasta sem hent getur á nútíma heimilum. Valur Helgason hefur öflugan dælubúnað til að losa slíkar stíflur. Stíflur eru oftast fjarlægðar með háþrýstitækni en þar sem lagnir eru sérstaklega viðkvæmar eða stíflaðar með harðgerðum aðskotahlutum er beitt þeirri tækni sem árangursríkust getur orðið í hverju tilfelli fyrir sig. Ef grunur leikur á að stíflan geti verið vegna bilunar eða aðskotahluta í skólplögnum þá höfum við yfir að ráða myndavélum og staðsetningartækjum. Staðsetningarbúnaður og dýptarmælir staðsetur stíflur og bilanir af mikilli nákvæmni.

Rótarfræsing lagna

Í grónum hverfum setur trjágróður mikinn og hlýlegan svip á umhverfið. En rætur trjánna eru oft óvinir húseigenda, sérstaklega þar sem frárennslisrör eru steinsteypt. Ræturnar þröngva sér iðulega inn í rörin og stífla þau að endingu. Plaströr eru ekki full trygging fyrir því að trjárætur komist ekki inn í lagnakerfið. Ef raki kemst einhversstaðar út úr lögn, t.d. vegna galla í þéttihringjum, geta ræturnar þröngvað sér inn. Það er gömul mýta að rætur aspa séu einu óvinir lagnanna. Staðreyndin er sú að rætur margra annarra trjátegunda þröngva sér inn í lagnir ef þær fá tækifæri til. Trjárætur elta rakann og ef þær fá að vera óáreittar vaxa þær inn með lögnunum og stífla þær eða jafnvel sprengja að endingu. Þéttleiki rótanna er þá orðinn svo mikill að ekkert tæki bítur á þeim. Því hafa sumir húseigendur orðið fyrir því að þurfa jafnvel að brjóta upp gólf innanhúss til að fjarlægja rótarstíflaðar lagnir. Reglubundið eftirlit með röramyndavélum getur því komið í veg fyrir kostnaðarfrekt viðhald.

Rótarfræsing fer fram með sérútbúnum tækjum sem fræsa lagnirnar innanverðar með miklum snúningskrafti. Fræsingar eru sjaldnast varanleg lausn því komast þarf fyrir rót vandans.

Meindýraeyðing

Í lagnakerfinu geta myndast kjöraðstæður fyrir allskyns óværu. Klóakmaurar, silfurskottur, rottur og ýmsar aðrar lífverur koma sér oft fyrir í lögnunum og leita síðan inn í hýbýli manna. Slíkar verur eru ófögnuður fyrir húseigendur sem flestir vilja láta fjarlægja þessa óvelkomnu boðflennur hið snarasta.

Valur Helgason er í samstarfi við meindýraeyða sem eru með búnað til að eyða skordýrum, geitungum, músum og rottum.